Sálfræðingur Greiningar og meðferðar hefur hlotið sérþjálfun í EMDR meðferð.
EMDR meðferð er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla. Sumir þættir EMDR meðferðar eru einstakir fyrir þá meðferð, en einnig eru nýttir þættir úr öðrum eldri, árangursríkum meðferðarformum, s.s. hugrænni atferlismeðferð og dýnamískum meðferðarformum.
EMDR meðferð er venjulega einstaklingsmeðferð. Meðferðaraðilinn situr nálægt skjólstæðingi sínum og fylgir meðferðarhandriti (protocol) í samræmi við vandann hverju sinni. Þegar ákveðið hefur verið með hvaða minningu skuli unnið er minningin metin kerfisbundið áður en úrvinnsla hefst. Í úrvinnslunni eru notaðar augnhreyfingar eða annað tvíhliða áreiti sem er sérstakt fyrir EMDR. Stafirnir EM í EMDR standa fyrir Eye Movements eða augnhreyfingar.
Í úrvinnslunni skoðar skjólstæðingur minninguna frá ýmsum hliðum og hugsanir og tilfinningar henni tengdar. Inn á milli hreyfir skjólstæðingur augun til að fylgjast með taktföstum handahreyfingum meðferðaraðila innan sjónsviðs skjólstæðings. Úrvinnslan getur verið þungbær í upphafi en óþægindin minnka þegar á líður og upplifun minningarinnar fer að breytast um leið og hún fær nýja merkingu og tengist nýjum hugsunum og tilfinningum. Þegar um einn tiltölulega einfaldan atburð er að ræða nægir oft einn úrvinnslutími. Þegar minningin eða áföllin eru flókin, mörg eða ná yfir langan tíma, þarf fleiri meðferðartíma.