Meðferð sem byggir á samkennd (e. Compassion Focused Therapy) (CFT) hefur vakið athygli undanfarið. Brautryðjandi hennar er Paul Gilbert en ýmsir sporgöngumenn hans hafa fært hana yfir á sértæk svið.
CFT er ákveðin áhersla í hugrænni atferlismeðferð (HAM), þar sem er tekið aukið tillit til ýmissa þátta sem hafa áhrif á það hvernig við hugsum og hegðum okkur. Þar er máttur þróunarsögunnar fyrirferðarmikill og þau áhrif sem frumstæðari hlutar heilans hafa á okkur. Önnur megináhersla er samspilið á milli ógnar, öryggisleitar og sáttar sem getur orðið æði flókið. Jafnvel getur orðið til vítahringur sem við læsumst inni í. Sektarkennd og skömm vegna liðinna atburða geta hamlað okkur svo mjög að lífið verði varla bærilegt. Félagsleg tengsl skipta okkur miklu máli þannig að auðmýking og skömm hlýtur að hafa mikil áhrif á það hvernig okkur líður og hvað við gerum dags daglega. Við getum „lært“ að við séum vonlaus og að engin leið sé til að bæta úr því.
Paul Gilbert hefur fyrst og fremst tengt CFT við þunglyndi og margir telja sjálfshjálparbók hans um þunglyndi vera þá bestu sem rituð hefur verið (hlekkur). Aðrir hafa aðlagað CFT frekar að öðrum vandamálum, svo sem áföllum og kvíða. Meginstefin eru þó alltaf hin sömu. Hjá þeim meðferðaraðilum sem nota CFT verður aðferðin gjarnan grunntónn sem ratar inn í alla meðferð þeirra.
Í meðferð sem byggir á samkennd er fyrsta skrefið fræðsla, sem ein og sér getur haft mikil áhrif á það hvernig við upplifum okkur. Svo er reynt að greiða úr tilfinningaflækjum og hugsanaskekkjum með ýmsum aðferðum. Loks er unnið með samkennd (e. compassion) þannig að sátt náist. Til að finna innri sátt er oft notuð gjörhygli (e. mindfulness), en það er ekki nein krafa að svo sé.
Meðferð sem byggir á samkennd hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun undanfarið. Paul Gilbert hefur náð góðum árangri í tilvikum þar sem aðrir hafa gefist upp. Hér eru nokkrir hlekkir á erlent efni sem kynnir CFT nánar:
- Hlekkur 1 – Samkenndarstofnun Paul Gilberts.
- Hlekkur 2 – Þróun og þunglyndi – fyrirlestur Paul Gilberts 2008.
- Hlekkur 3 – Þróun, samkennd og andleg velferð – fyrirlestur Paul Gilberts 2007.
Höfundarréttur (c) 2021 – allur réttur áskilinn – frjálst er að hlekkja á síðuna.