Hugræn atferlismeðferð (HAM) er uppistaðan í þeirri meðferð sem er veitt hjá Greiningu og meðferð. Þessi aðferð er víða orðin fyrsta val við ýmsum vanda og hefur enga þá ókosti sem geðlyf geta haft. Í hugrænni atferlismeðferð er áherslan á samspilið sem hlýtur að vera til staðar milli hugsana, líðunar, líkamlegs ástands og hegðunar. HAM athugar sérstaklega hvernig hegðun okkar og hugsanir hafa áhrif á líðan og líkamlegt ástand. Þegar það hefur verið kortlagt eru hugsanaskekkjur endurmetnar og hegðuninni hnikað til betri vegar.
Góð greining í HAM bæði kortleggur vandann og skýrir hvernig hugsanaskekkjur viðhalda honum. Margt sem við hugsum yfir daginn er nefnilega ekki endilega rétt. Allt frá fæðingu lærum við af umhverfi okkar. Stundum fáum við mjög neikvæða sýn á okkur sjálf, aðra eða veröldina almennt sem engan veginn fær staðist þegar gagnrýnu hugarfari er beitt. Stór hluti af meðferðinni er einmitt fólginn í að leiðrétta slíka dómhörku.
Rannsóknir sýna að meirihluti þeirra sem sækja sér slíka sálfræðimeðferð fá nokkurn eða talsverðan bata. Forsenda fyrir góðum árangri er þó að unnið sé með meginvandann. Til dæmis getur depurð verið afleiðing af áfalli frekar en orsök vanlíðunar þess sem leitar sér aðstoðar. Þá er mikilvægt að unnið sé með áfallið sem veldur depurðinni. Þess vegna er vönduð greining sálfræðings ávallt forsenda fyrir góðri meðferð.
Hugræn atferlismeðferð getur haft mjög mismunandi áherslur eftir þvi hver stundar hana og við hvaða vanda er fengist. Hjá Greiningu og meðferð er lögð mikil áhersla á að breyta hegðun þegar fengist er við depurð, sérstaklega þegar ungt fólk á í hlut. Yfirleitt er árangur góður. Í öðrum vanda er farið meira inn á samspil hugsunar, hegðunar og líðanar.
Í erfiðari málum er stuðst við „Compassion Focused Therapy (CFT)“ Paul Gilberts og þegar kemur að erfiðum áföllum hefur einnig verið stuðst við „Cognitive Processing Therapy (CPT)“ sem byggir á úrvinnsluaðferðum dr. Patriciu Resick eða EMDR sem er allt öðru vísi úrvinnsla.
Þegar greining sýnir að ADHD er undirliggjandi vandi þá er bæði í boði stuðningur til að vinna úr þeirri reynslu sem vandanum fylgja venjulega og eins aðferðir til að draga úr afleiðingum vandans. Stuðst er við HAM sem má nýta sér með eða án lyfja.
Hlekkur – Félag um hugræna atferlismeðferð.
Höfundarréttur (c) 2021 – allur réttur áskilinn – frjálst er að hlekkja á síðuna.