Sálfræðiþjónusta

Sálfræðiþjónusta Greiningar og meðferðar snýr að fullorðnum einstaklingum, en einnig vinnustöðum. Sálfræðistofan er miðsvæðis í Reykjavík og aðgengi að henni er gott. Hjá Greiningu og meðferð býr mikil þekking og reynsla á helstu viðfangsefnum hennar. Sálfræðiþjónusta Greiningar og meðferðar er viðurkennd af Landlæknisembættinu og Vinnueftirlitinu.

Sálfræðingur Greiningar og meðferðar, Hannes Björnsson, hefur klíníska sálfræði fullorðinna og vinnusálfræði sem sérsvið í sálfræðimenntun sinni og hefur starfað á báðum þessum sviðum undanfarin ár. Þá hefur hann mikla og fjölþætta reynslu sem sóknarprestur og stundakennari á háskólastigi. Hann og helsti samstarfsaðili Greiningar og meðferðar hafa starfað í tengslum við Háskóla Íslands um árabil.

Meðal verkefna á sviði vinnusálfræði eru úttektir á vinnustöðum ýmist með eigindlegri aðferð (viðtöl) eða megindlegri (netkannanir). Einnig eru gerðar eineltisathuganir eða leiðbeint í slíkum málum. Lögð er áhersla á hraða og vandaða afgreiðslu mála þar sem algerlega hlutlaus aðkoma, skýrir verkferlar og þagmælska eru höfð að leiðarljósi. Loks er veittur stuðningur, handleiðsla og ráðgjöf, til dæmis í eineltismálum.

Meðal klíniskra verkefna er hugræn atferlismeðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum. Í því starfi eru meðal annars notaðar aðferðir Paul Gilbert (meðferð sem byggir á samkennd) og Patriciu Resick (hugræn úrvinnslumeðferð) sem hafa reynst árangursríkar. Þegar það á við er notað EMDR sem leysir úr tilfinningavanda á annan hátt. Greining á ADHD fullorðinna er einnig í boði.

 Höfundarréttur (c) 2021 – allur réttur áskilinn – frjálst er að hlekkja á síðuna.